Terta er þverfaglegt hönnunarteymi sem hefur starfað síðan árið 2019 að hönnun og endurnýjun Elliðaárstöðvar sem nýs áfangastaðar með almenningsrými, gestastofu, veitingastað og fræðslu.
Terta samanstendur af Ármanni Agnarssyni, grafískum hönnuði, Brynhildi Pálsdóttur, vöruhönnuði, og Evu Huld Friðriksdóttur og Magneu Guðmundsdóttur, arkitektum á Teiknistofunni Stiku. Þau hafa öll starfað á fjölbreyttum vettvangi hvert á sínu sviði og unnið að margvíslegum sjálfstæðum verkefnum sem og samstarfsverkefnum. Meðal annars hafa þau komið að vöruframleiðslu, bókahönnun, efnisrannsóknum, kennslu, sýningarhönnun, matarhönnun, mörkun, vöruþróun, hönnun á byggingum og borgarskipulagi. Þá hafa hönnuðir Tertu hlotið fjölmargar viðurkenningar og styrki.
Tillagan Með orkunni úr ánni er tertan bökuð bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárdal sem Orkuveita Reykjavíkur stóð fyrir í samstarfi við Miðstöð hönnunar og arkitektúrs.
Kristín María Sigþórsdóttir upplifunarhönnuður vann einnig að samkeppnistillögu og hönnunarhandbók Elliðaárstöðvar og Snæbjörn Guðmundsson jarðfræðingur og Kristbjörg Anna Þórarinsdóttir eðlisfræðingur voru hluti af þeim hópi sem vann samkeppnistillöguna.
Atli Bollason listamaður og Birta Fróðadóttir arkitekt hafa einnig starfað með hópnum.
Ráðgjafar Tertu við verkefnið voru Hnit verkfræðistofa, Landslag, Ljósark og Liska.
info@tstika.is ami@armannagnarson.com brynhildur@brynhildurpalsdottir.is
simi: 866 3090