Veiturnar í dalnum
Veiturnar eru samofnar sögu Elliðaárdals og náttúru hans. Þar hefur krafturinn í ánni verið virkjaður til rafmagnsframleiðslu, jarðvarminn sömuleiðis til húshitunar og ræktaður upp skógur. Svæðið hefur haft mjög mikið að segja fyrir iðnsögu Íslands.
Orkuveita Reykjavíkur átti stóran þátt í að gera Elliðaárdal að því fallega svæði sem hann er í dag.
Þegar skógræktin í dalnum hófst árið 1951 voru það starfsmenn Rafmagnsveitu Reykjavíkur sem fóru saman og gróðursettu einu sinni á ári.
Mikill félagsskapur var í kringum skógræktina, starfsfólk mætti prúðbúið við gróðursetningu, og svo var fagnað með dansi og góðum veigum.
Ásamt húsaþyrpingu í Elliðaárstöð eru Árbæjarstífla og aðfallsrörið sem liggur samhliða Rafstöðvarvegi friðuð mannvirki. Terta vinnur nú að tillögum í samstarfi við OR, Minjavernd og Reykjavíkurborg um „endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal – Niðurlagningaráætlun Elliðaárvirkjunar.“
Tillagan gengur út á að á völdum stöðum við aðfallsrör og stíflu verði sagan og mannvirkin dregin fram með innsetningum sem auka aðgengi, bjóða upp á leik eða endurlit til fortíðar - þess tíma þegar nútíminn hélt innreið sína á reykvísk heimili.
Hönnun Tertu hefur spilað lykilhlutverk í að sameina ólík sjónarmið um friðun og aflagningu mannvirkja.
Verkefnið heyrir undir 79. grein vatnalaga um niðurlagningu mannvirkja, lög um menningaminjar og náttúruvernd svo fátt eitt sé nefnt.
Að virkja skóginn og hólmann og tengja hann betur við sögu Elliðaárstöðvar var ein af grunnhugmyndunum í tillögunni. Terta bauð þremur hönnunarteymum að hanna innsetningu í hólman sem skapa nýja upplifun fyrir gesti og gangandi og minna okkur um leið á samband manns og náttúru.
Tími og efni
Sóley Þráinsdóttir fjallar um staðfræðilega sögu hólmans með ólíkum efnum sem mynda eins konar sundurslitna tímalínu sem nýtist jafnt til leikja, sem setrými og til fræðslu.
Rótarör
Stúdíó Flétta hannaði bekki úr stálrörum sem vísa til rótarkerfa trjánna sem liggja þvers og kruss um hólmann en kallast einnig á við rör veitukerfanna sem liggja þvers og kruss um borgina alla.
Ómsveppir
Kristín María Sigþórsdóttir og Friðrik Steinn Friðriksson eru hönnuðir álsveppa sem komið hefur verið fyrir í skógarrjóðri í hólmanum. Sveppatínsla í skógum er núvitundarathöfn sem má líkja við skógarbað. Ómsveppirnir gefa frá sér falleg hljóð í skóginum sem falla vel að skóginum og minna okkur á að staldra við, skoða náttúruna með nýjum augum og njóta.