Ný vin á gömlum grunni
Elliðaárstöð iðar af lífi allt árið um kring. Það sem var áður afvikið iðnaðarsvæði er nú heimili fjölbreyttrar dagskrár og leikja. Það má sulla, sleikja sólina eða fá sér kaffi og kruðerí á meðan maður fræðist um veiturnar og sögu staðarins gegnum fjölbreytta hönnunina. Þekkingunni er ekki troðið ofan í gesti en forvitin munu sjá að hvert smáatriði á sér samsvörun í magnaðri sögu staðarins og áhrifanna sem hann hefur haft á líf borgarbúa.
Þetta fyrsta sumar (2024) sem Elliðaárstöð var að fullu opin eftir breytingar komu um 15-20.000 gestir mánaðarlega og þar hafa verið haldnir tugir viðburða allt árið um kring.
Rafstöðin í Elliðaárdal var vígð árið 1921 og lýsti leiðina til framtíðar. Rafmagnið og veiturnar sem fylgdu í kjölfarið umbyltu lífsgæðum borgarbúa og með þeim varð til þekking og hugvit sem samfélagið býr enn að í dag.
Árbæjarstíflan, aðfallspípan meðfram Rafstöðvarvegi, áin, dalurinn og húsaþyrpingin í Elliðaárstöð mynda eina heild.
Þegar rafstöðin var byggð árið 1921 var staðurinn afskekktur en stöðvarstjórinn þurfti að annast reksturinn. Því var Stöðvarstjórahúsið byggt í kjölfarið á sama bletti ásamt fjósi, smiðju og síðar hlöðu þar sem nú er kaffihús.
Byggingarnar fimm sem voru upphaflega reistar á reitnum voru teiknaðar af verkfræðingunum Aage Broager Christensen, Jóni Þorlákssyni og Guðmundi Hlíðdal og eru nú friðaðar.
Elliðaá hlykkjast niður dalinn frá Árbæjarstíflu. Aðfallspípan liggur frá stíflunni meðfram Rafstöðvarvegi að Gömlu rafstöðinni.
Morgunblaðið, 31. mars 1920
Elsti hluti Straumskiptistöðvarinnar er byggður árið 1932 í fúnkís stíl eftir teikningum Sigurðar Guðmundssonar arkitekts en hún var byggð til að taka á móti rafmagni sem fór að berast frá virkjunum við Sogið þegar það var ljóst að gamla rafstöðin annaði ekki eftirspurn.
Hún gnæfir yfir eldri byggingum og ber með sér keim nýrra tíma.