Útisvæði

Aðdráttarafl Elliðaárstöðvar felst ekki síst í fjölmörgum nýjum útisvæðum sem hafa hvert um sig ólík hlutverk en segja öll sögu staðarins og veitnanna um leið og þau gefa tækifæri til þess að leika og slaka á.

Bílumferð hefur vikið af svæðinu en malbikaður vegur leiðir gesti í gegnum svæðið. Hvítar línur minna á veiturnar undir yfirborðinu.

Á veitutorginu við Straumskiptistöðina er regnvatnstjörn fyrir miðju sem safnar vatni af þökum. Sturtur þjóna hér tilgangi gosbrunna en torgið sjálft er þakið steyptum flekum sem vísa í einkennismerki Rafveitunnar gömlu og hlutverk Straumskiptistöðvar á fyrri tímum.

Þar sem aðfallspípan liggur undir mön við Rafstöðvarveg sprettur út setpallur þar sem gamlar fjalir úr sjálfri pípunni mynda sæti.

Dofri, stundum nefndur verðmætasta vinnuvél Íslandssögunnar, stendur á hitaveitutorgi ásamt Carbfixhúsi og kallast þannig á við nýja tíma í sögu jarðvarmanýtingar.

Borstangir Dofra ramma inn göngustíg niður að á.

Við túnið, þar sem í dag er boðið upp á leiksýningar undir berum himni, eru minnisvarðar um tengivirkið sem áður stóð þar. Í stað raforku er nú líkamleg orka virkjuð í leiktækjum við upphífingar eða stökk.

Vatnsleikjasvæðið er eins og smækkuð mynd af Elliðaárdalnum neðan stíflu. Vatnið rennur niður af hóli í tveimur árkvíslum og myndar árhólma.

Flæðandi vatn gefur tilfinningu fyrir fallorku vatnsins. Leiktæki sýna með ólíkum hætti virkni fallorku og hreyfiorku. Leikendur geta stíflað ánna til að búa til lón eða veitt henni um nýja farvegi. Pumpa undir skýlinu knýr áfram litla myllu sem kveikir ljós.

Vatnspumpur, fontur og þakniðurföll eru auðmerktar með bláum lit rennandi vatns á meðan ljósastaurar fá appelsínugulan lit.