Hönnunarnálgun
Í hönnuninni er lagt upp með að dylja ekki afnot mannsins af auðlindum heldur undirstrika jákvætt samlífi manns og náttúru.
Við vildum bæði nýta það sem fyrir er á svæðinu til fullnustu auk þess að vísa í sögu hagnýtingar með því að sækja innblástur í fyrirbæri sem eru nú horfin úr dalnum.
Efnisnotkun dregur dám af byggingarefnum veitukerfisins og byggingarlist húsanna sem standa á torfunni. Hönnunin er hversdagsleg, innblásin til jafns af heimilinu og iðnaðinum sem býr að baki snurðulausri upplifun okkar af veitunum í daglegu lífi.
Nýtt hlutverk bygginga á svæðinu og útisvæðið er allt hannað með fræðslu og leik í huga. Sögu- og tæknisýning er ekki afmarkað inn í sýningarsal heldur má fræðast um sögu staðarins, orkuna í náttúrunni og veiturnar allt um kring, jafnt úti og inni.
NÝ MYND
Hönnun og efniviður yfirborðsefna endurspegla söguna. Smiðja, hlaða og fjós voru byggð á dönskum grunni í kjölfar gömlu Rafstöðvarinnar en Straumskiptistöð var byggð í fúnkísstíl og þjónaði stórtækri uppbyggingu raforkuvinnslu í Soginu árið 1937.
Á hitaveitutorgi, þar sem Dofri stendur sem minnisvarði um sögu hitaveitunnar, voru lok af hitaveitustokki notuð sem yfirborðsefni.
Í Elliðaárstöð er grafískri hönnun, vöruhönnun, landslagshönnun, upplifunarhönnun og arkitektúr fléttað saman í heildstætt verk sem myndar fræðandi upplifun um veitustarfsemina í hjarta borgarinnar.
Sterkt grafískt viðmót einkennir svæðið og er það yfirfært á alla þætti staðarins, bæði úti og inni. Uppsprettan er skýr tákn og skilaboð lita í veitukerfinu.
Tillaga Tertu, Úr orkunni úr ánni er tertan bökuð, bar sigur úr býtum í hugmyndasamkeppni um Sögu- og tæknisýningu á vegum Orkuveitu Reykjavíkur.
Í kjölfarið var gefin út Hönnunarhandbók þar sem hugmyndafræði var þróuð og heimildavinnu gerð skil.
Handbókina má lesa hér.